29.6.05

Uppkast að grein

Það er búið að ljúga svo rosalega að fólki hvað varðar flugvöllinn að ég er að hugsa um að skrifa grein í Moggann. Þetta er allra fyrsta uppkast svo það er bannað að ráðast á stafsetningu. Ég á líka eftir að fá fleira fólk til að skoða og bæta við.



Lestir Íslands.

Í allflestum stórborgum hins vestræna heims býr fólk við góðar lestarsamgöngur. Þannig kemst fólk á milli borga og landshluta án mikillar fyrirhafnar. Við Íslendingar njótum þess ekki að hafa lestir til að ferðast með en í staðin höfum við flugið. Við getum komist nánast hvert á land sem er með lítilli fyrirhöfn og á skömmum tíma vegna góðra flugsamgangna hér á landi og til að toppa þetta svo alveg erum við með flugvöll nálægt öllum helstu ríkisstofnununum í Reykjavík.

Reykjavíkurflugvöllur hefur verið mikið í umræðunni undanfarið og mikið talað um að hann verði að fara. Þeir sem þetta segja eru þó í minnihluta. Flestir telja völlinn vel staðsettan þar sem hann er. Kostnaður við að færa völlinn er gríðarlegur og það að ætla að byggja annan enn dýrara. Lóðasala á svæðinu nær ekki broti af þeim kostnaði til baka að ótöldum samgöngumannvirkjunum sem þyrftu að rísa. Af hverju ættum við að rífa völlinn á þeim rökum að aðrar þjóðir vilji ekki völl í borgum sínum þegar það eru augljósar lygar. Nærtækasta dæmið er í London, þar sem London City völlurinn var byggður inni í miðri borg til að koma á móts við neytendur. New York er með 3 velli í og við borgina. Aðflugið að Kastrup liggur beint yfir úthverfi kaupmannahafnar og þetta eru allt stórir flugvellir hugsaðri fyrir stórar vélar. Málið er að aðrar þjóðir öfunda okkur af þessari gersemi sem völlurinn er. Svæðið sem völlurinn tekur er ekki nema brot af því svæði sem aðrar borgir fórna undir lestarsamgöngur sínar og þar sem við höfum ekki upp á lestar að bjóða er þetta góð lausn. Það er hægt að velta því fyrir sér hver viðbrögðin væru ef Kaupmannahafnarbúum væri sagt að þeir þurfti að ferðast 45 mín með rútu til að komast í lestirnar.

Sjúkraflugið er svo eitt sem má ekki gleyma. Erum við í stakk búin til að hætta að flytja fársjúkt og slasað fólk á fullkomnustu sjúkrahúsin í landinu? Ætlum við að líta á þetta sem fórnarkostnað?

Það má ekki gleyma því að samkvæmt rannsóknum sem gerðar voru fyrir nokkrum árum er hagnaður af vellinum allt að 16 milljarðar á ári. Loftið í Reykjavík er hvergi hreinna, þar sem mengunin á vellinum kemur að mestu leiti frá bílaumferð umhverfis flugvöllinn og hávaðamengunin á svæðinu er að mestu frá Hringbrautinni. Einnig má taka fram að þessar niðurstöður fengust allar áður en tekist var til við að beina flugumferð þannig að hún liggi að mestu frá þeirri byggð sem næst vellinum er.

Það eru einstaklingar hér á landi sem eru til í að leggja allt í það að losna við völlinn og þá helst með þeim rökum að þeim einfaldlega finnst að völlurinn ætti að fara. Af því bara! Þeir vilja háhýsi í landi okkar lágu sólar svo skuggarnir taki örugglega völdin í hinni fallegu Vatnsmýri. Þeir ætla að græða peninga á lóðasölu en horfa framhjá að innkoma af flugvellinum á hverju ári er meiri en gróðinn sem kemur inn við það að selja landið.