28.2.06

Erfitt að koma blogginum af stað

Ég er í skrif ham....
Helgin hófst á föstudag eins og venjulega nema að núna var það vísindaferð. Marel. Skoðuðum verksmiðjuna sem er verulega kúl og fengum okkur svo smá öl. Þeir skömmtuðu smátt svo það voru allir í góðu formi þegar við fórum í lögreglusalinn til að drekka meira. Þar var vesen með að koma okkur inn á þeim forsendum sem áður var lofað sem var einkum vegna þess að útskriftar deild viðskipta deildar HR sem stóð að partýinu vildi rukka inn. Heimska lið. Þessvegna vildi enginn koma asnar. Við fórum inn fyrir rest og fengum okkar öl. Tómur salur þar til í endann, sem var um miðnætti að einhver mætti, og við fórum í partý í næstu götu hjá félaga í árgangi á undann. VT4.(við erum VT2) Allavega var það fínt. Þar var stofnuð skólahljómsveit sem á eftir að fá húsnæði og formlega meðlimi. Þegar ég hélt að klukkan væri um 4 fór ég heim í strætó og var kominn heim rúmlega 12. Fékk mér einn vískí og fór að sofa. Var hissa á að vera orðinn hress á hádegi og hóf undirbúninga á veislu sem var lofuð á þessum degi.

Ég bjó til geggjaða marineringu fyrir lamba fyle, fyllti gryllkartöflur með smöri og sallti sem virkaði vel( ætla ekki í nánar skýringar), ristaði grænmeti, bjó til sallat og mallaði geggjaða sósu. Sósan klikkaði á síðustu stundu þar sem ég gleymdi að taka lokið af og þurfti að setja hveiti til að þykkja. Góð en ljót sósa. Eyðilagði þetta fyrir mér.

Félagsskapurinn bjargaði málunum. Björg og Ragnheiður systir hennar voru stórskemmtilegar og virtust kunna að meta matinn. Átum meira en rúmlega einn skammt á mann. Ísterta í desert með osti og melonu.

Svo kom Elke hans Hannesar og spilaði með okkur Scotland Yard fram á nótt. Gott kvöld það. Ég á eftir að segja frá monu og því að hún fer að fara....

Verst að ég á eftir að standa við loforðið við Dísu með allt þetta rauðvín og kaffi....

Berið út....Dísa næst...

Stóra klukkið...

7 af öllu klukkið

7 Hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey:
1)Spila meira á trommur
2)Vinna sem flugmaður
3)Eignast geðveikt mótorhjól
4)Eignast poolborð
5)Skoða heiminn
6)Ná í konu
7)Eiga fyrir reikningum

7 Hlutir sem ég get gert:
1)Drukkið mikinn bjór
2)Eignast vinkonur (mín bölvun á sinn hátt)
3)Eldað góðann mat
4)Verið kaldhæðinn
5)Flogið flugvélum
6)Lagað bíla
7)Legið í leti

7 Hlutir sem ég get alls ekki: (stafsetning meðtalin)
1)Haldið í kvennmann
2)Sett fæturna aftur fyrir hnakka
3)Skilið stærðfræði
4)Gert hluti tímanlega
5)Skilið hvernig gýrkassar virka
6)Farið snemma að sofa
7)Vaknað snemma

7 Frægir sem heilla:
1)John Travolta - Kúl gaur og á flottar flugvélar
2)Chad Smith - Topp trommuleikari í RHCP
3)Gwen Stefani- Kúl persóna og uber flott
4)Marisa Tomei- Fer lítið fyrir þessari gellu( get ekki talið upp allt kvennfólkið)
5)Óli Hólm- Negldasti Trommari Íslands
6)Wright bræður- Sama hvor er
7)Ég- Á bara eftir að gerast

7 Hlutir sem heilla mig við aðrar manneskjur:
1)Brosmildi-Klikkar ekki
2)Áhugasemi- á því sem ég er að segja
3)Heilsa- Fíla heilbrigt folk
4)Kvennkyn- Heillar mig stöðugt
5)Rass/Brjóst- Verður að koma fram
6)Stollt

7)Góður húmor-Nauðsinlegur
7 Setningar sem ég nota mikið:
1)Any how
2)Blitzen
3)Heisjan
4)Láttiggi´sonna
5)Ég held..
6)Sheiser..
7)Heyrðiskan..

7 Hlutir sem ég sé
1)Lapparinn minn
2)Sjónvarpið hans pabba
3)Íslensk Orðabók Fyriri Skóla og Skrifstofur
4)Málverk eftir Dieter Roth
5)Málverk eftir Eirík Smith
6)Scrabble
7)Öskubakka

7 Sem ég ætla ad klukka
1)Dísa Lareau
2)Hjalti
3)Erna
4)Mona frænka
5)Björg
6)Borgar
7)Gulli Briem

Partý...

Jæja komið að því að ég segi hvernig parýið fór...

Það var gaman. Við vorum fáir sem mættum en allir þeir sem ég átti von á.

Ég, Jón, Jón, Egill, Halli og Grettir. Auðvitað vorum við gömlumennirnir við gryllið, ég og Jónsi, sem lukkaðist vel þar sem ég sótti ljóshundinn hanns pabba úr skúrnum til að upplýsa gryllið. Á meðan slökuðu hinir á með Discovery vélaþáttum á. Lundir, læri og streikur mölluðu flott og runnu í liðið sem fékk snakk, gulrætur og vínber í forrétt. Svo var drukkið og talað við "vinabekkinnn" BT. Við fórum svo að hitta þá en ekki fyrr en við höfðum smakkað á John´s special Mojitos. Það samanstóð í fyrstu af 3 klökum, 3 laufum af myntu,lime og fylla með gini. Ég komst í tæka tíð að málinu svo ég malaði klakann, lég kreysta limið og fann rétta glasastærð. Það bætti málið lítið nema að drykkurinn var vel góður á bragðið. Drakk einn slíkann ofan á tæplega hálfa rauðvínsflösku og nokkra bjóra. Þeir sem þekkja mig vita að ég á ekki að drekka sterkt. Við fórum svo í Partý neðar í hverfinu, ásamt því að snúa við og sækja gítarstrengi, stingandi hina fótgangandi af, og hafandi gaman, allt var gott. Nema að um 20 mín eftir að við mættum nennti ég ekki meir. Fannst ég drukkinn og langaði ekki meir. Stakk af og labbaði heim sem gerði mér gott. Ætlaði að blogga þegar heim kæmi um hvað veldur kvennleysi mínu. Sem betur fer var ég enn að skrifa uppkast þegar strákarnir létu bíl sækja mig til að fara niður í Mjódd á Strætóbar að jamma meira. Þá var ég orðinn sæmilegur svo þegar ég kom var kaldur á borðinu og skellihlæjandi gaurar þar sem ígyldi versta trúbators heimsinns var að fara á kostum á KORG hlómborðinu sínu(KORG er fyrir þá bestu og þessi var á hinum endanum) og skemmti gríðarlega. Við drukkum og hlógum og reyndum að fá lausa menn til að reyna við lausar á barnum. Fundum eina fallega og gerðum árás. Virkaði ekki vel. Rúmlega tvítug og gullfalleg gella neitaði gaurunum að koma og spjalla. Hvað var til ráða? Jú... Gamla Doddabragðið. Senda mig til að sækja gelluna og sjá svo til. Veit ekki af hverju þetta er svo auðvellt, maður fer og talar, segir eitthvað sniðugt og nær svo í gelluna ( á borðið) , sem ég gerði. Klikkar sjaldan. Við vorum með henni það sem eftir lifði og hún ætlar að verða flugmaður þar sem mamma hennar er flugfreyja og pabbinn er flugstjóri. Reyndi að fá hana í nám. Vonandi meira man. Líklega var hún ekki smeik þar sem ég sannfærði hana um að ég væri rammm fastur sjálfur.
Allavega var gaman... Svo fóru allir sáttir heim og eftir gleði dagsinns beið bara ógleði næsta dags.....

16.2.06

Hvað sagði músin við vegginn?

Loks komið að því að bekkurinn geri eitthvað. Á morgun, föstudag, ættlum við bekkjarfélagarnir að fá okkur nokkra öl og chilla með grilli og sumarstemmningu. Við höfum aldrei hist utan skólans nema í nokkrir í einu í einhverjum vísindaferðum en ákváðum að nú væri kominn tími til. Farnir að þekkja hvern annann nokkuð vel eftir eina og 1/3 önn, munandi nöfnin hver á öðrum og sonna. Það er furðulegt að vera í bekk með eintómum karlmönnum. Það fer gríðarlegur tími í áhugamála tal þar sem það má bæði tala um konur og tæki endalaust án þess að nokkrum leiðist það. Meira að segja ef einhver á fremsta bekk skoðar x-rated síður á netinu og allir fyrir aftan sjá það skiptir það ekki máli. Hinir bara njóta þess með honum. Þetta hefur vissulega ákveðna galla þar sem enginn reynir að vera dannaður. Mestu pinnarnir halda sér á mottunni, nokkurnveginn, en hinir sleppa sér alveg. Það líða ekki 5 mín. án farts og ákveðnir menn alveg ófeimnir við að dreifa vel úr ruslinu sínu og matarleyfum, öðrum til ama. En þar sem engar stelpur eru á svæðinu er þeim alveg sama því það er ekki fyrir neina að sýnast vera annað en sóði. Líklega er ég mesti röflarinn yfir rusli í stofunni og hinir sem vilja grunn snyrtimennsku láta mér röflið eftir. Hef hlustað á sjálfann mig röfla og ég hljóma eins og níræð alheimsmamma að ala upp óheflaðann manndóminn. Þeir sem til þekkja skilja þetta væntanlega ekki þar sem flestir þeirra hafa komið heim til mín og það er ekki til fyrirmyndar. En það gildir annað með það sem ég kalla vinnuaðstöðu, þar á að vera snyrtilegt. Prófaði reyndar að hætta röfli í smá tíma en þá tóku bara aðrir við við að reka þessa fáu til að taka til.
Það er líka gaman að sjá muninn á mönnum þar sem það eru 13 eða 14 ár á milli elsta og yngsta manns. Helsti munurinn felst í magni bjórs sem þeir drekka, annars tæki maður ekki eftir þessu og það er alltaf gaman að fylgjast með bjórdrykku ef maður má vera með. Sannar að strákar hætta aldrei að vera strákar. Bílar, mótorhjól, jeppar, mótorar, byssur, konur og síðast en ekki síst flug. Já ég má tala um flug þarna. Þetta segir mér að það er til fólk utan flugsins sem nennir að tala um það. Verst að það skulu ekki vera aðrir vinir og kunningjar sem yfirleitt hverfa fljótlega eftir að ég reyni að ræða slík mál (auðvitað að sænska læchninum undanskildum en hann er bara upptekinn við að verða sænskur læchnir þessa daganna).
Allavega bjór gryll og gauragangur eftir skóla á morgun. Hvernig getur það klikkað? Sjáum til, það er einn sem verður alltaf að slást aðeins, einn sem er líklegur til að vera nokkuð mikið glaður, einn edrú, og flestir líklegir til að verða ölvaðir. En allir helvíti fínir gaurar. Samt sem áður... engar stelpur. Það er ekki partý eins og maður er vanur og ég hlakka til að sjá hvort menn haga sér öðruvísi án þeirra á jamminu. Hef fengið nasaþef af því og það endaði með blóðnasir, bólgnu andliti og glóðarauga. Bara að það brotni ekkert.

Segi fréttir af þessu

11.2.06

Lífið er ekki svo slæmt...

Ég er ekki bjartsýnn maður að eðlisfari, allavega ekki nema í mestalagi 3-4 daga í viku. Eftir að hafa fengið 7,5 í hreyfiaflfræði getur greinilega allt gerst svo ég ætla að reyna að bæta allavega einum degi til viðbótar við í hverri viku. Undanfarið hefur fátt annað en skólinn ráðið ferðinni og það er kanski ekki svo slæmt. Á síðustu önn lét ég skólann algerlega stjórna öllu sem ég gerði og sleppti því nærri að njóta lífsins. Ég játa mistök mín þar sem það er versta önn skólasögu minnar með 3 endurtekningarpróf. Ég var ekki með neitt áramótaheit en tók samt ákvörðun um að slappa betur af og taka hlutina ekki jafn alvarlega þar sem það þreytir og gerir mann hreynlega að kjána. Þessa önnina hef ég skemmt mér meira en alla síðustu og það er bara kominn rúmlega mánuður. Það er að virka. Hitti fleira fólk og meira að segja veðrið er betra. Hvort sem það er orsök eða afleiðing. Það er allavega skemmtilegra að vera til. Síðasta ár endaði illa og þetta ár heftst vel. Vonandi verður þetta mitt ár og ef lukkan helst mín megin fæ ég vinnu við flögrið. Ég reyndar fékk nei svar frá flugfélagi íslands í gær en ætla ekki að láta það skemma skap mitt. Það má líka við þetta bæta að littla stóra frænka er á landinu sem gleður mig stöðugt og léttir mitt skap. Hún einmitt var líka að skora vel í prófi sem kemur henni áfram á hennar framabraut. Gangi þér vel frænka.
Nú er ég líka farinn að vinna meira á kaffihúsinu aftur sem er tilbreyting frá eintómu skólastússi. Ég skal fúslega viðurkenna að ég er með massívann skólaleiða og er ekki að nenna að sinna þessu. Eftir nánast 25 ár á skólabekk er það vonandi skiljanlegt.
Ferillinn:

6 ára í skóla.
16 í menntó
19 meirapróf með menntó
20 Iðnskólinn í hönnun með vinnu í múrverki
20-21 einkaflugmaður og atvinnubýlsjtóri
21 atvinnuflugmannsnám
23 atvinnuflugmaður
23 Flugkennari+Atvinnubýlstjóri í frammhaldsnámi í flugi
28 Atvinnuflugmaður og flugkennari í frumgreinadeild að háskólanámi
30 Stúdent í annað sinn og nú sem tæknistúdent sem bætist við tungumálastúdent
31 Atvinnulaus flugmaður, flugkennari og háskólastúdent með óraðna framtíð

skólinn er bara besti staðurinn til að vera á. Það er ótrúlegt hvað maður kemst að því hversu vitlaus maður er þegar maður fer að læra. Sem er ekki svo slæmt. Það er betra að vita hversu lítið maður veit en að telja sig vita allt. Ég hefði aldrei áttað mig á því að ég get lært stærðfræði nema með því að henda mér í djúpulaugina og skrá mig í háskóla. Ég meira að segja fór á tungumálabraut í menntó vegna þess að ég taldi mig snauðann af raungreinagenum. Er ekki skarpasti stærðfræðimaurinn í deildinni en tel mig ekki lengur þann allra slappasta. Þó eru vísbendingar þess eðlis að ég sé bara á mörkunum þar sem ég féll í 3 fögum. Var reyndar í öðrum prófum á sama tíma og er lengi að átta mig á þessu öllu þar sem grunnurinn er enginn. Nýtt motto er að gefast aldrei upp.